Sælt veri fólkið. Hvernig stendur á því, að fólk er ekki endanlega búið að sleppa sér í reiði vegna frétta af milljarða þjófnaði út úr Glitni? Topparnir þar "lánuðu" tug milljarða, ÁN ÁBYRGÐAR, til fyrirtækis í Bolungarvík sem enginn vissi af fyrr en nú. Það er svo greinilegt að stráklingurinn, sem skráður var fyrir þessu fyrirtæki, var notaður sem leppur við risa þjófnað út úr bankanum. Ég er orðlaus yfir aðgerðarleysi saksóknara ríkisins og lögregluembættisins. Ef um einhver smásíli væri að ræða, sætu viðkomandi inni á meðan rannsókn stæði yfir. Nú er að koma í ljós hvert fjármagnið úr sjóðum bankans fór. Þegar þessir glæpamenn eru beðnir um skýringar, bera þeir við bankaleynd eða að fólki komi þetta ekki við. Ósvífnin er slík að það sýður hreinlega á manni. Núna sitja þessir hundar og moka yfir slóð sína á meðan saksóknari, lögreglustjóri og já dómsmálaráðherra klóra sér í rassgatinu aðgerðarlausir. Það er ekki búið að frysta eigur þeirra, þeir búa í höllum sínum og keyra lúxus kerrur sínar ennþá. Þeir sína hroka og fyrirlitningu í aðgerðum sínum vegna þess að þeir virðast vera undir verndarvæng yfirvalda. Þeir telja sig vera stikkfrí. Kreppan nær ekki til þeirra því nú geta þeir fitnað af þýfinu sem þeir hafa komið undan. Ef yfirvöld taka ekki á þessum málum öllum ,verðum við almenningur að gera það sjálf. Nú tel ég að það styttist verulega í að þessir ræflar flýi land vegna uppljóstrana DV. um þetta mál. Þá látum við yfirvöld bera ábyrgðina á glæpnum. Ég hvet nú DV til dáða í þessum málum og dragi þeir hvergi undan í rannsóknarblaðamennsku sinni. Hristið ærlega upp í þessu drullusvaði, því þar leynast örugglega ótrúlegustu nöfn undir steini. Látið höfuðin hiklaust fjúka. Sæl að sinni.